Kettirnir vöktu mig í gærmorgun rétt upp úr sex með því að koma allir þrír upp í rúm. Ég leit á klukkuna, 06:09 og bað þá vinsamlegast leyfa mér að sofa þar til vekjaraklukkan myndi hringja. Þrátt fyrir áralangt nábýli við þessar skynugu skepnur láist mér enn að skilja þær til fulls en auðvitað voru þær að láta mig vita að gos væri nýhafið á Reykjanesskaga. Dýrin eru áreiðanlegri en margur.
Ríkislögreglustjóri í nafni dómsmálaráðuneytisins freistar þess að stýra fréttaflutningi af atburðum á Reykjanesskaga sem í rauntíma eru að breyta íslensku samfélagi. Fjölmiðlum er því gert að sætta sig við útsýnisferðir í skipulögðum rútuferðum sem eru stjórnvöldum þóknanlegar. Ríkisútvarpið í óþökk ríkislögreglustjóra náði þó í vikunni tali af Grindvíkingum sem voru í óða önn að bjarga eignum sínum og gaf viðtalið landsmönnum djúpa innsýn í veruleika þeirra. Auðvitað kom fram það sem við óttumst öll, að viðbrögð ríkisins við þessari náttúrvá eru því miður flaustursleg og óviðunandi. Það er auðvitað það sem verið er að fela. Íslensk stjórnvöld voru ekki með neitt plan og að reyna að breiða yfir það í svokölluðu lýðræðisríki er fjarstæða og krafa fréttafólks því sjálfsögð. Ég man í svipinn eftir einu landi þar sem fjölmiðlafólki er gert að keyra eftir ákveðnum leiðum eingöngu. Það er Norður-Kórea.
Tveir ungir drengir voru handteknir á Austurvelli þar sem þeir voru ásamt öðrum að krefjast vopnahlés á Gaza. Samkvæmt sjónarvottum var lítill aðdragandi að handtöku drengjanna en lögreglan segir drengina ekki hafa hlýtt fyrirmælum, sem við þurfum að fá að vita hver voru, hindrað störf lögreglu, en á hvern hátt vitum við ekki, og framið skemmdarverk sem enn hafa ekki verið tiltekin. Það er stjórnarskrárvarinn réttur okkar allra að mótmæla og það er vonarglæta í því að ungt fólk láti sig heimsmálin varða. Ungt fólk fer auðvitað ekki varhluta af því sem er að gerast í kringum okkur því stríðsátök búa til andrúmsloft sem þrungið er sorg. Að mæta ungum mótmælendum með hörku er glötuð uppeldisaðferð, því við viljum gjarnan að ungt fólk geti treyst því að gott sé að leita til lögreglu ef svo ber undir og krefja þarf lögreglu um ítarlegar ástæður handtöku drengjanna.
Heimsátök eru upplögð til að þjálfa með ungu fólki gagnrýna hugsun og velta því fyrir sér hvernig veraldarhjólin snúast.
Myndum við vita hvað friður væri ef engin væru stríðin? Á ekki allt sér sína andhverfu? Á hvaða hugmyndafræði byggja Ísraelar linnulausar árásir á Palstínsku þjóðina? Hvers vegna spretta upp samtök á borð við Hamas? Hvernig réttlæta þjóðir gjörðir sínar gagnvart öðum þjóðum? Halda þau rök vatni?
Heimsátök eru upplagður grundvöllur umræðna í skólum þar sem nemendur eru ýmist með eða á móti þeim sem stríða til að skoða megi mál frá öllum hliðum svo ungt fólk geti betur lært að draga eigin ályktanir. Að færa rök fyrir máli sínu æsingalaust er listgrein sem hægt er að kenna. Að þjálfa upp gagnrýna hugsun hefur sennilega aldrei verið mikilvægara.
Að hugsa sjálfstætt er það dýrmætasta sem maðurinn á. Að fylkja sér á bak við skoðanir annara, þótt útbreiddar séu, er töluvert hættuspil en oft sú stutta leið sem margir velja. Það er eins og það þyki nú eðlilegt að útskúfa þau sem eru annarar skoðunar en maður sjálfur en það leiðir auðvitað til enn frekari átaka og sundrungar manna á milli. Í öllum átökum er mikilvægt að gleypa ekki upplýsingar að óskoðuðu máli. Það er forvitnilegt að reyna að skilja andstæðinga sína með opnum huga. Spyrja þá spurninga ef við skiljum ekki afstöðu þeirra. Við þurfum ekkert að vera sammála. Okkur getur þrátt fyrir andstæð sjónarmið þótt vænt um hvort annað. Mannkynið verður að standa saman gegn yfirlæti herforingja heimsins sem láta mannslíf sig engu varða.