Mannsævin er að því er virðist eilíf styrjöld og líf mannanna gjarnan mælt í sigrum og tapi. Fyrsta orrustan sem við háum er sjálf fæðingin, þegar okkur er ekki lengur vært í öruggum móðurkviði. Á þeirri stundu er okkur gert að yfirgefa þessi fyrstu heimkynni okkar fyrirvaralítið, stundum fyrirvaralaust og berjast af öllum kröftum til lífs og andardráttar á nýjum og ókunnum stað. Heimurinn mætir þér, þar sem þú þekkir raunverulega engan. Harkalegt er það upphaf og kannski berum við öll merki þeirrar baráttu með okkur allan þann tíma sem við fáum hér á jörðinni.
Ég þarf að kljást við yngstu börnin mín næstum á hverjum virkum degi til að sækja skóla og ég er sannarlega orðin óvinurinn þegar ég kalla í þriðja sinn að þau séu að verða of sein. Stundum gefst ég upp og tapa orrustunni. Það tap er töluvert því að ég tel mig vita, hvað þeim er fyrir bestu og að auðvitað væri það rétta að mæta í skólann. Okkur er rækilega innrætt að ef við mætum ekki í skóla og öflum okkur þekkingar, þá verðum við undir í lífsbaráttunni. Sumsé töpum. Eða í það minnsta erum við þá fyrirfram stimpluð í lífsleiknum, sem gengur allur út á, að því er virðist, að sigra eða tapa. Að verða undir eða ofan á.
En stundum eru unglingarnir bara illa sofin eins og gengur með fólk á þessum aldri og þá er það viturlegt, hvað sem hver segir, að lúta í lægra haldi fyrir svefndrunganum og innrætingunni fyrrnefndu, þótt ég gæti beitt ýmsum og harkalegri brögðum til að fá mínu fram, af því ég tel mig auðvitað hafa til þess vald, rétt og vit.
Suma morgna vinna unglingarnir því stríðið við hermann innrætingarinnar, móður sína, og hafa jafnvel skammdegið sjálft undir, steinsofandi. Vinna sér inn dýrmætan svefn sem þau þurfa reyndar sannarlega á að halda. En eru þau á sama tíma líka að tapa þegar þau fá sínu fram og missa úr skóla? Eða eru þau að auka lífsgæði sín með því að vinna upp svefntap og þar með bæta heilsu sína? Því eins og allir vita þá töpum við slagsmálunum við hugann, búkinn og heilsuna ef við sofum ekki nægilega vel! Þetta er ekkert einfalt! Sigur og tap.
Í íþróttum er tekist á í öllum greinum. Liðin vilja alla sigra, því það er afleitt að tapa. Við keppum til að vinna. Er það ósvikin sigurvíma að keppni lokinni þegar þú veist að einhver sem lagði hart að sér situr eftir með engan bikar, ekkert HÚ? Vonsvikinn og jafnvel niðurlægður á alþjóðagrundvelli?
Er ekki sigur eins og flestir álita hann ekki alltaf líka tap? Bara eins og í stríðum þeim sem nú geysa, þar sem einhver þykist sigurviss á sömu stundu og andstæðingarnir verða undir, þjást, deyja og tapa. Hverskonar sigur er það?
Svona berumst við á banaspjótum í lífinu. Fjöldi fólks sækir um sama starfið, einn hreppir það og hinir sitja eftir særðir á atvinnuvígvellinum. Á fasteignamarkaðinum er slegist um eignir, þær keyptar á yfirverði af þeim sem best standa sig í fjárhagskapphlaupinu eða á undirverði af þeim sem slyngastir eru í klækjunum og eftir sitja tapararnir. Og yfir þessu hlakka þeir sem vinninginn hafa hverju sinni. Það er eitthvað alveg kolrangt við þetta allt saman. Þetta er glataður leikur.
Það er íslensk hernaðarlist, að kveða fólk í kútinn, hafa andstæðinginn undir í rökræðum og helst skilja viðkomandi eftir eins og rassskelltan apa. Hvaða gæfa eða upphefð fylgir því að taka málið af öðrum með gáfum, mælsku, útúrsnúningum eða kjafthætti og yfirgangi? Hefur sá sem slíkt iðkar sigur úr býtum? Hvernig smakkast sá sigur? Hvað finnst okkur í raun og veru um það að sýna öðrum manneskjum slíka framkomu? Fólki sem ekki er jafn sterkt á svellinu að þessu leyti og hefur hugsanlega engan metnað til að sigra slíka andstæðinga?
Sá sem velur að lifa á vígvellinum og berjast til sigurs er lögmálinu samkvæmt, dæmdur til að tapa fyrir sjálfum sér, í blindri sigurvímunni. Mannssálin gerir held ég, engan greinarmun á því hvernig þú kemur fram við aðra og hvernig þú kemur fram við sjálfan þig. Ef þú hefur aðra undir og meiðir þá um leið þá ertu jafnframt að skaða þig og langt frá því sigra, öðrunær, þú ert að tapa, fyrir þér sjálfum. Sú afbakaða hugmynd sem við höfum um sigur er nefnilega alltaf líka einhverskonar tap.
Sumir átta sig á því, að sigur eins og mannkynið hefur kosið að skilja hann og markaðsetja með glansmyndum af sigurvegurum af öllu tagi, er nær alltaf líka einhvers tap, og taka því aldrei til vopna og forðast átök. Einhverjir eru þeir sem hafa skilið að leikurinn, sigur og tap eins og við spilum hann, er hörmuleg og hættuleg endileysa.
Mannkyninu færist kannski betur ef við lifðum alfarið utan valla. Mér er ekkert að detta þetta í hug. Við höfum nokkrar fyrirmyndir í veraldarsögunni sem hafa reynt að kenna okkur aðra jafnvægisleiki þar sem líklegra er að allir njóti góðs af. Það kann nefnilega að vera að raunverulegur sigur sé aðeins unnin án allra átaka.